Ferill 367. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1995–96. – 1065 ár frá stofnun Alþingis.
120. löggjafarþing. – 367 . mál.


644. Frumvarp til laga



um breytingu á lögum um innflutning dýra, nr. 54/1990.

(Lagt fyrir Alþingi á 120. löggjafarþingi 1995–96.)



1. gr.


    Við 7. gr. laganna bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
    Eigendur dýra og erfðaefnis greiða gjöld fyrir þjónustu sóttvarnastöðvar samkvæmt gjaldskrá er landbúnaðarráðherra setur, að fengnum tillögum yfirdýralæknis. Við ákvörðun um gjaldskrá skal við það miðað að tekjur sóttvarnastöðvar standi undir útgjöldum hennar.

2. gr.


    Í stað orðanna „Búnaðarfélags Íslands“ í 1. og 2. mgr. 12. gr. og 1. mgr. 20. gr. laganna kemur: Bændasamtaka Íslands.

3. gr.


    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Samkvæmt lögum um innflutning dýra, nr. 54 16. maí 1990, er óheimilt að flytja til landsins hvers konar dýr, tamin eða villt, svo og erfðaefni þeirra. Skv. 2. mgr. 2. gr. laganna getur landbúnaðarráðherra, að fengnum meðmælum yfirdýralæknis, vikið frá banni þessu og leyft innflutning dýra. Í 1. mgr. 9. gr. laganna er gert ráð fyrir því að öll innflutt dýr skuli einangruð svo lengi sem yfirdýralæknir telur þörf á. Innflutt dýr má ekki flytja úr sóttvarnastöð skv. 10. gr. laganna, en landbúnaðarráðherra er þó heimilt, ef fyrir liggja meðmæli yfirdýralæknis, að víkja frá ákvæðum 10. gr. og veita leyfi til þess að heimilisdýr sem ekki eru af ætt hóf- og klaufdýra séu flutt úr sóttvarnastöð. Slíkur flutningur skal ekki fara fram fyrr en dýrin hafa verið svo lengi í einangrun að tryggt þyki, að mati yfirdýralæknis, að dýrin séu ekki haldin neinum smitsjúkdómum.
    Í 7. gr. laganna er gert ráð fyrir því að til staðar sé sóttvarnastöð vegna innflutnings á dýrum og erfðaefni. Öll aðstaða til einangrunar og sóttvarna skal fullnægja þeim kröfum sem yfirdýralæknir telur nauðsynlegar. Frá gildistöku laganna um innflutning dýra hefur átt sér stað allnokkur innflutningur á gæludýrum, einkum hundum og köttum, og hafa dýrin verið vistuð í einangrunarstöðinni í Hrísey í tiltekinn tíma og gegn greiðslu gjalds fyrir einangrunina. Í lögum um innflutning dýra skortir heimild til þeirrar gjaldtöku sem hér um ræðir. Í áliti umboðsmanns Alþingis frá 22. ágúst 1995 er þeim tilmælum beint til landbúnaðarráðuneytisins að það beiti sér fyrir breytingum á lögum nr. 54/1990 í þá veru að tekin verði í lög ótvíræð heimild til gjaldtöku vegna einangrunar dýra og er frumvarp þetta flutt vegna þessara tilmæla.
    Í 1. gr. frumvarpsins er lagt til að kveðið verði á um gjöld sem greiða þarf fyrir einangrun dýra í sérstakri gjaldskrá sem ráðherra setur að fengnum tillögum yfirdýralæknis.
    Í 2. gr. frumvarpsins er lagt til að Bændasamtök Íslands taki við verkefnum Búnaðarfélags Íslands sem því eru fengin í lögunum. Er það gert vegna ákvæða í 4. gr. laga nr. 130/1994, um sameiningu Búnaðarfélags Íslands og Stéttarsambands bænda í ein heildarsamtök bænda, en þar er svo fyrir mælt að endurskoða skuli öll lagaákvæði þar sem vísað er til Búnaðarfélags Íslands eða Stéttarsambands bænda.


Fylgiskjal.


Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:



Umsögn um frumvarp til laga um breytingu


á lögum um innflutning dýra, nr. 54/1990.


    Með frumvarpinu er verið að færa í lög framkvæmd undanfarinna ára um að taka gjald af eigendum dýra og erfðaefnis fyrir þjónustu sóttvarnastöðvar. Gert er ráð fyrir að landbúnaðarráðherra setji gjaldskrá þessa efnis að fengnum tillögum yfirdýralæknis. Í samræmi við 4. gr. laga nr. 130/1994, um sameiningu Búnaðarfélags Íslands og Stéttarsambands bænda í ein heildarsamtök bænda, er í frumvarpinu einnig lagt til að Bændasamtök Íslands taki við þeim verkefnum sem Búnaðarfélag Íslands hafði samkvæmt lögum um innflutning dýra, nr. 54/1990. Ekki verður séð að samþykkt frumvarpsins hafi í för með sér aukinn kostnað fyrir ríkissjóð.